Svo virðist sem krónan sé að hraðri niðurleið en samkvæmt vef m5.is er gengisvísitalan nú 218 stig og hefur krónan því veikst um 1,9% í morgun.

Þá hefur krónan veikst um 5% á einni viku, og rétt er að hafa í huga að hún styrktist lítillega í síðustu viku eftir að Alþingi breytti lögum um gjaldeyrishöft, og 13% á einum mánuði.

Samkvæmt vef M5 stendur Evran nú í 166,8 krónum, Bandaríkjadalur í 125,7 krónum og Sterlingspundið í 183,8 krónum.

Þá stendur svissneskur franki í 109,7 krónum og japanskt jen í 1,3 krónum.

Í síðustu viku ræddi Viðskiptablaðið við starfsmann á gjaldeyrismarkaði sem sagði þá að rekja mætti styrkingu krónunnar þann daginn til framlengingu laga um gjaldeyrishöft.

Þá gerði hann jafnvel ráð fyrir því að krónan myndi styrkjast fram að helgi en eftir helgina færi hins vegar að reyna á hvort gjaldeyrishöftin hefðu þau áhrif sem þeim er ætlað að hafa.

„Þá kemur í ljós hvort og hvernig þetta virkar,“ segir starfsmaður af gjaldeyrismarkaði í samtali við Viðskiptablaðið.