*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 28. ágúst 2019 16:50

Krónan í góðum gír en tap hjá Elko

Festi var rekið með 601 milljón króna hagnaði á fyrri helmingi ársins.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Festi var rekið með 601 milljón króna hagnaði á fyrri helmingi ársins. Hagnaður tímabilsins var 20% lægri en á sama tíma í fyrra. Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi bendir á að erfitt sé að bera afkomuna saman milli ára þar sem N1 og Festi sameinuðust á síðari helmingi ársins 2018. 

Rekstrartekjur námu 40 milljörðum króna og rekstrarhagnaður var 1,8 milljónir króna. Bensínsala dróst saman, að mestu vegna sölu Dælunnar. Þá var afkoma Krónunnar umfram áætlun en afkoma Elko verri en búist var við. Rekstrarhagnaður N1 nam 257 milljónum króna á fyrri helmingi ársins. Rekstrarhagnaður Krónunnar nam 381 milljón króna en 18 milljóna króna rekstrartap var hjá Elko á sama tímabili. Hins vegar var 1,1 milljarðs króna rekstrarhagnaður af fasteignasafni félagsins.

„Það er ánægjulegt að rekstur Festi í heild sé að ná þeim markmiðum sem við settum okkur fyrir árið 2019 og er EBITDA annars ársfjórðungs að staðfesta þann góða grunn sem við höfum lagt eftir samrunann. Fjölgun félaga í samstæðunni milli ársfjórðunga 2018 og 2019 gerir allan samanburð milli þessara tímabila erfiðan. Að sama skapi skýrist minni sala á bensíni og gasolíu að stórum hluta með sölu á Dælunni. Starfsfólk Festi hefur lagt hart að sér síðustu misseri og það sést augljóslega á rekstrinum að sú góða vinna er að skila árangri sem boðar gott fyrir reksturinn á komandi árum. Rekstur félagsins á tímabilinu var góður, efnahagsreikningur sterkur með 32,7% eiginfjárhlutfall ásamt mjög sterku sjóðstreymi,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.

Stikkorð: Krónan N1 Festi Elko