*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 1. október 2017 13:32

Krónan í veikingarfasa á þriðja ársfjórðungi

Íslenska krónan veiktist um 6,2% gagnvart sínum helstu viðskiptamyntum milli júlí og september.

Ritstjórn

Íslenska krónan veiktist um 6,2% gagnvart sínum helstu viðskiptamyntum á þriðja ársfjórðungi (júlí, ágúst, september). Það hægði á veikingu krónunnar eftir því sem leið á tímabilið, en nokkuð dró úr flökti á gengi krónunnar í september. Veiktist krónan um 3,2% í júlí, 1,8% í ágúst og 0,5% í september.

Þegar litið er til einstakra viðskiptamynta veiktist krónan um 7% gagnvart evrunni á tímabilinu, 6,4% gagnvart breska pundinu og 3,1% gagnvart Bandaríkjadollar. Gagnvart norrænu myntunum veiktist krónan um 8,4% gagnvart norsku krónunni, 7,2% gagnvart sænsku krónunni og 6,9% gagnvart dönsku krónunni. Þá veiktist krónan um 3,6% gagnvart japanska jeninu og 2,2% gagnvart svissneska frankanum.

Á fyrstu níu mánuðum ársins er krónan búin að veikjast um 0,9%. Frá afnámi fjármagnshafta í mars síðastliðinn hefur krónan veikst um rúmlega 5%. Á ársgrundvelli – miðað við lok september á þessu ári og á síðasta ári – hefur krónan þó styrkst um 4,6%. Frá stjórnarslitunum á aðfaranótt föstudagsins 15. september síðastliðinn hefur krónan styrkst um 1,5%.