Undanfarinn hálfan mánuð hefur gengi krónu hækkað um 9% eftir að hafa náð sögulegum lægðum upp úr miðjum júnímánuði. „Ekki sér enn fyrir endann á þessu styrkingarferli,“ segir greiningardeild Glitnis og bendir á að krónan hefur styrkst um 0,6% frá opnun markaða.

Krónan er nú komin á svipaðar slóðir og hún var í upphafi júnímánaðar, og er einnig nærri meðalgengi tímabilsins frá miðjum marsmánuði, en þá má segja að gjaldeyrismarkaðir hafi hliðrað gengi krónu um nálega 15% í kjölfar þess að vaxtamunur nánast hvarf á markaði fyrir gjaldmiðlaskiptasamninga, að sögn greiningardeildarinnar.

„Ein ástæða styrkingarinnar nú er raunar sú að vaxtamunur milli Íslands og viðskiptalandanna endurspeglast á ný að hluta í verðlagningu á framangreindum markaði. Auk þess leit krónubréfaútgáfa óvænt dagsins ljós í síðustu viku, sem eykur nokkuð líkur á að gjalddögum á haustmánuðum verði mætt að einhverju leyti með nýjum krónubréfaútgáfum. Þá hafa ýmsar hávaxtamyntir verið heldur að sækja í sig veðrið eftir veikingarhrinu fyrr á árinu.

Einnig má benda á að væntingar um frekari vaxtahækkun á evrusvæði hafa minnkað mjög eftir ummæli Trichet, seðlabankastjóra ECB, á síðasta fimmtudag, en þar gaf hann sterklega í skyn að vaxtahækkunin þá um 0,25 prósentustig í 4,25% markaði ekki nauðsynlega upphafið að hækkunarferli vaxta á evrusvæðinu,“ segir greiningardeildin.

Gengisþróun krónu til skemmri tíma mun væntanlega ráðast að verulegu leyti af því hvort áfram verður hægt að nálgast vaxtamun við útlönd á gjaldeyrismarkaði auk þess sem áhættulyst á alþjóðamörkuðum verður áfram mikill áhrifavaldur á gengi krónu, að sögn greiningardeildarinnar.