Raungengi krónunnar miðað við verðlag var 10,6% lægra í júlí síðastliðinn en í sama mánuði fyrir ári en að nafnvirði sé gengið 12,2% veikara. Þetta kemur fram í mánaðarlegu yfirliti Hagfræðideildar Landsbankans um þróun gjaldeyrismarkaða, en deildin bendir jafnframt á að raungengið sé nú 17% lægra en þegar það var hæst í júní 2017. Segir deildin að breyting á raungengi skýrist aðallega af nafngengisbreytingunni.

Gengi krónunnar gagnvart evru (evru/krónu krossinn) fór hæst í 140 síðastliðinn þriðjudag en  var annars undir 140 allan ágúst. Frá áramótum hefur íslenska krónan veikst gagnvart gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda okkar, að sænsku krónunni undanskilinni, en gengisvísitalan hefur hækkað um tæp 11% síðastliðna 12 mánuði. Velta á gjaldeyrismarkaði í mánuðinum var álíka mikil og í ágúst í fyrra, en seðlabankinn greip ekki inn á gjaldeyrismarkaðinn í mánuðinum.

„Eftir að hafa aukist nokkuð í júlí, er flöktið á íslensku krónunni á móti evru að leita aftur niður á við,“ segir ennfremur í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.