Krónan mun að öllum líkindum haldast sterk út árið ef þróunin í vaxtamunarviðskiptum verður sú sem markaðurinn væntir. Þýska ríkið gaf út krónubréf í gær að andvirði þriggja milljarða króna, og hafði gengi krónunnar styrkst um 0,4% í kjölfarið við lokun markaða.

Krónan er afar sterk þessa dagana, gengisvísitalan fer lækkandi og fer líklega undir gildið 110 á næstunni ef heldur fram sem horfir. Á þriðja ársfjórðungi eru 102 milljarðar krónubréfa á gjalddaga, og fer heildarupphæð útistandandi krónubréfa að nálgast 400 milljarða.

Markaðurinn reiknar með að gjalddagar á yfirstandandi fjórðungi verði framlengdir enda umhverfi vaxtamunarviðskipta ennþá hagfellt fjárfestum. Gera má ráð fyrir að nokkur gangur verði ennþá í krónubréfaútgáfu á næstu vikum og mánuðum í ljósi þess mikla styrkingarhams krónunnar.

Erlendir fjárfestar veigamiklir í gengisþróun

Að sögn Steingríms Arnars Finnssonar hjá  Gjaldeyris- og afleiðumiðlun Kaupþings hefur markaðurinn trú á því að gjalddagar bréfanna verði framlengdir: "Útgáfurnar að undanförnu hafa  að mestu leyti verið framlengdar að okkar mati. Í byrjun ársins var nokkur skrekkur í  markaðnum vegna umfangsmikilla gjalddaga sem höfðu safnast á ákveðin tímabil á árinu, hins vegar virðist sem bróðupartur þeirra hafi verið framlengdur og stöðutaka með krónunni hefur verið mikil. Til að mynda eru um 80 milljarðar króna á gjalddaga á fjórða ársfjórðungi og gerum við ráð fyrir að því verði að stórum hluta velt áfram."

Aðspurður um hversu veigamikil  áhrif vaxtamunarviðskipti með krónuna hafa á gengisþróun hennar segir hann þau vera mikilvæg: "Þau  hafa verið einn helsti burðarás krónunnar á síðastliðnum tveimur árum, og skiptir erlend lántaka  innlendra aðila  einnig miklu máli. Erlend lántaka  er  náttúrulega vaxtamunarviðskipti í annarri mynd - í þeim skilningi að lántakendur veðja á  að vaxtamunurinn haldi krónunni sterkri og lækki vaxtagreiðslur."

Japanska jenið hefur veikst talsvert undanfarið ár, og þá sérstaklega gagnvart evrunni. Þegar jenið veikist ýtir það gengi krónunnar upp, enda hugsa vaxtamunarfjárfestar sér gott til glóðarinnar þar sem sterkari króna færir þeim meira í vasann.

Sömu áhrifa gætir með svissneska frankann, en þessar tvær myntir eru vinsælustu lágvaxtamyntirnar í vaxtamunarviðskiptum - þegar svissneski frankinn veikist hefur það styrkjandi áhrif á krónuna.

Festist krónan í sessi sem hávaxtamynt?

Sökum hás vaxtastigs er seljanleiki krónunnar afar mikill, sem verður að teljast jákvætt fyrir minnsta gjaldmiðil heims. Markaðurinn getur nú tekið við stærri upphæðum en áður, en jafnframt því hefur flökt á gjaldeyrismarkaði aukist töluvert. Krónan er sérstaklega óstöðug vegna smæðar gjaldmiðilsins, og meðan erlendir fjárfestar halda áfram að gefa út krónubréf í jafnmiklum mæli og nú mun gengið haldast sterkt til skamms tíma.

Ýmsir tiltölulega nýtilkomnir þættir, sem hafa lítið að gera með íslenskt efnahagslíf, hafa áhrif á verðlagningu krónunnar í dag. Aukið upplýsingaflæði og greiningarefni er nú fyrir hendi í viðskiptalífinu sem gerir fjárfestum kleift að bregðast fyrr við breyttum aðstæðum, og oft á annan hátt en ella.

Einnig getur aukin áhættufælni á heimsvísu haft skammtímaáhrif á gengið, það kemur ekki síst fram í gegnum eignasafnsáhrif. Ef vextir hækka í lágvaxtaríkjum minnka fjárfestar oft vægi vaxtamunarviðskipta í umsvifum sínum, þar með talin viðskipti með krónubréf óháð afkomu.