Það er nauðsynlegt að gengi krónunnar veikist ekki með afnámi gjaldeyrishafta. Atvinnulífið þarf að treysta á það að gengi krónunnar haldist stöðugt þrátt fyrir að gjaldeyrishöftin verði afnumin í skömmtum.

Þetta sagði Franek Rozwadowski, sendifulltrúi AGS á Íslandi á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga nú í hádeginu en fundurinn var haldinn undir heitinu; Næstu skref: Hvað er framundan í íslensku efnahags- og atvinnulífi?

Rozwadowski sagði að augljóslega hefði komist leki á gjaldeyrishöftin hér á landi og það útskýrði að hluta veikingu krónunnar undanfarnar vikur.

Þá sagði Rozwadowski jafnframt að nauðsynlegt væri að renna sterkum stoðum undir starfsemi bankanna því lítið myndi gerast í framfaraátt fyrr en búið væri að standsetja bankastofnanirnar með trúverðugum hætti.

Í þriðja lagi sagði Rozwadowski að gjaldeyrishöft yrðu að öllum líkindum ekki afnumin fyrr en gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands væri orðinn það traustur að Seðlabankinn gæti varist áhlaupi á konuna.