Gengi krónunnar hefur lækkað í morgun um tæplega 2,1% og gengisvísitalan er 120,5 stig, segir greiningardeild Glitnis, sem telur að krónan eigi eftir að lækka enn frekar að verðgildi á næstu dögum. Það mun tryggja jafnvægi í hagkerfinu.

Um er að ræða lið í jákvæðri þróun, segir greiningardeildin og bendir á að gengislækkun krónunnar hafi verið fyrirséð.

Krónan lækkaði hratt strax eftir opnun markaða.

Gengi krónunnar hefur lækkað um ríflega 11% á einum mánuði. Dollarinn er um 72 krónur en var tæplega 64 krónur fyrir mánuði.

Evran er um 86 krónur og hefur hækkað um 10 krónur á síðastliðnum mánuði, segir greiningardeildin.

Greiningardeildin reiknaði með gengislækkunin en hún er fyrr á ferðinni á hagvaxtartímabilinu og því líklegt að um sé að ræða tímabundið yfirskot og að litið til næstu vikna muni gengislækkun undanfarinn mánuð koma að einhverju leyti til baka.

Gengislækkun krónunnar með haustinu og fram á næsta ár er síðan líkleg.

Lækkunin kallar á viðbrögð Seðlabankans og mun, að öllum líkindum, hækka stýrivexti um 0,5% þann 30. mars að mati greiningardeildarinnar.

Fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans væri hentugra ef lækkunin ætti sér stað í minni skrefum og síðar á hagvaxtartímabilinu, segir greiningardeild Glitnis.

Viðskiptahallinn er mikill sem og kaup innlendra aðila á erlendum verðbréfum og ljóst er að til þess að ekki verði áfram snörp gengislækkun krónunnar þarf talsvert innflæði fjármagns.

Þrátt fyrir talsverðan mun innlendra og erlendra vaxta hefur hökt komið í flæðið undanfarið.

Ástæðan fyrir því er umræða um mikið ójafnvægi hins íslenska efnahagslífs sem og birting hagtalna sem styðja þá mynd.