Íslenska krónan styrktist um 4% í desember og er gengi krónu í ársbyrjun nú umtalsvert hærra en raunin var á sama tíma í fyrra. Verðbólguþrýstingur er að sama skapi minni um þessar mundir, segir í Greiningu Íslandsbanka. Greining segir að þróunin komi Seðlabankanum vel, enda auki hún trú á getu bankans til að halda gengissveiflum í skefjum, auk þess sem hann hafi náð að afla sér töluverðs gjaldeyris síðustu mánuði. Auk þess hefur þróunin dregið úr verðbólguvæntingum.

Klukkan ellefu í morgun kostaði evran 158,5 krónur og Bandaríkjadollar 116 krónur á millibankamarkaði. Í ársbyrjun 2013 kostaði evran hins vegar tæplega 169 krónur og dollarinn nærri 128 krónur. Krónan er því u.þ.b. 7% sterkari gagnvart evru og 10% sterkari gagnvart dollar en raunin var fyrir ári síðan. Gagnvart viðskiptaveginni körfu helstu gjaldmiðla er krónan nú u.þ.b. 10% sterkari en raunin var fyrir ári síðan.