Íslenska krónan fór nálægt gengismeti sínu í gær þegar gengisvísitalan fór í 105,9 stig. Gengisvísitalan mælir verð erlendra gjaldmiðla í íslenskum krónum og þegar vísitalan lækkar þá styrkist krónan.

Greiningardeild Landsbankans segir að króna hafi aðeins einu sinni verið eins sterk og hún var í gær. "Gengi íslensku krónunnar var fellt um 6% í nóvember 1992 í tengslum við víðtækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Þá var fastgengisstefna við lýði og fór gengisvísitalan úr 100 stigum í tæp 106,4 stig. Frá þeim tíma hefur krónan aðeins einu sinni verið eins sterk og í dag, en það var 21. mars síðstliðinn þegar gengisvísitalan fór í 105,6 stig stutta stund innan dags."

Lokagengi vísitölunnar í dag var 106,2 stig. Gengi bandaríkjadals er nú 62,15 krónur, gengi evru 75,88 krónur og punds 112,16 krónur.