*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 21. janúar 2017 14:15

Krónan of sveiflukennd

Benedikt Jóhannesson, nýr fjármálaráðherra, segir endurskoðun peninga- og gengisstefnu í samvinnu við forsætisráðuneytið vera forgangsmál á árinu.

Snorri Páll Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Benedikt Jóhannesson, nýr fjármála- og efnahagsráðherra, segir að meginmarkmið fjármála- og efnahagsstefnunnar sé að draga úr þeim skörpu sveiflum sem einkenna íslenskt efnahagslíf. Tvennt sé á deiglunni í fjármálaráðuneytinu á næstunni, fyrir utan hefðbundin verkefni og aðgerðum á vinnumarkaði, sem eiga að stuðla að því markmiði.

Ný peningastefna og stöðugleikasjóður

Annars vegar verð­ur það forgangsmál að móta nýja peningastefnu á árinu í samráði við forsætisráðuneytið, sem nú fer með málefni Seðlabankans. Óhjá­kvæmilega kallar það einnig á endurmat á gjaldmiðilsstefnu landsins. Hins vegar er unnið að stofnun stöðugleikasjóðs.

„Ég hef ekki haft mikla trú á krónunni. Hún er óstöðug, fælir frá fjárfestingu og erlent vinnuafl og er orsakavaldur í háum vaxtamun við útlönd. Það stendur því til að endurskoða peninga- og gjaldmiðilsstefnuna. Við munum byggja á skýrslu Seðlabankans frá árinu 2012 í því endurmati, en þar eru teknir fram ýmsir kostir, t.d. myntráð og fastgengi. Ólíkt árinu 2012 erum við nú með mjög stóran gjaldeyriforða og því er myntráð raunhæfur kostur. En það er bara einn kostur af nokkrum. Markmiðið er að ná stöðugu gengi,“ segir Benedikt.

Benedikt segir að undirbúningsvinna sé í gangi við stofnun stöðugleikasjóðs.

„Það þarf þó að huga að ýmsu, svo sem væntanlegum arðgreiðslum Landsvirkjunar og hvernig sjóðurinn muni byggjast upp. Að sinni mun sjóðurinn einungis ná til arðs af orkuauðlindum,“ segir Benedikt. Bætir hann við að það sé mikilvægt fyrir lítið opið hagkerfi eins og Ísland að eiga slíkan varasjóð og sveiflujöfnunartæki til að mæta efnahagslegu hruni eða óvæntum áföllum á borð við eldgos, aflabrest eða mengunarslys.

Ríkisbankar ala á tortryggni

Annað atriði sem mun styrkja stöð­ una í ríkisfjármálum er sala á eignum sem komust í eigu ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins. „Stefnan er að selja eignirnar og sérstaklega er mikilvægt að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum,“ segir Benedikt. „Það er þverpólit­ísk sátt um að það verði gert hægt og örugglega í opnu og gagnsæju söluferli.

Það er hvorki hollt fyrir almenning né fjármálakerfið að ríkið eigi svona stóran hluta. Það elur á tortryggni. Þegar eitthvað kemur upp í bönkunum er stjórnmálamönnum kennt um, þó svo að Bankasýslan fari með eignarhlutinn. Þessi hræðsla fólks um að auðmenn fari að nota bankana eins og budduna sína, ásamt því að skattgreiðendur séu veðsettir fyrir skuldbindingum bankanna, er skiljanleg, en ríkiseign er ekki besta leiðin til að koma í veg fyrir það.“ 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.