*

fimmtudagur, 21. október 2021
Innlent 25. maí 2021 12:38

Krónan og hlutabréf á siglingu

Hlutabréf hafa hækkað nokkuð í dag og krónan styrkst um nærri 2%. Erlendir fjárfestar sækja inn á íslenskan hlutabréfamarkað.

Snær Snæbjörnsson
Haraldur Guðjónsson

Það sem af er degi hefur íslenska krónan styrkst um í kringum 2% gagnvart evru og Bandaríkjadollara samkvæmt almennu gengi innan dagsins hjá Íslandsbanka.

Evran stendur nú í 148,3 krónum og veikist um 1,9% gagnvart krónu og þá stendur Bandaríkjadollari í 121,3 krónum sem veikist um 2% gagnvart krónu. Líklegt er að jákvæðar fréttir af ferðaþjónustu, bólusetningum og vaxtahækkunum spili þátt í styrkingu á gengi krónunnar.

Viðskiptablaðið fjallaði síðastliðinn föstudag um að krónan hafi ekki verið sterkari gagnvart evrunni síðan í upphafi heimsfaraldursins í mars á síðasta ári. Evra kostaði 139 krónur þegar að fyrsta COVID-19 smitið greindist hér á landi þann 28. febrúar á síðasta ári en var komin í 165 krónur í lok október.

Þá stendur pundið í 171,4 krónum og veikist um 2,1% gagnvart krónu.

Hlutabréf á siglingu

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa erlendir verðbréfasjóðir verið áberandi í fjárfestingum í skráðum íslenskum félögum undanfarna daga sem styður við hækkun á gengi félaga í kauphöllinni sem og á íslensku krónunni. 

Þar skiptir eflaust máli að íslenski hlutabréfamarkaðurinn verður formlega tekinn inn í vísitölu MSCI yfir vaxtamarkaði þann 28. maí næstkomandi. Það opnar fyrir fjölda erlendra verðbréfasjóða að eignast hlut í skráðum íslenskum félögum sem hingað til hafa ekki haft til þess fjárfestingaheimild.

Sjá einnig: HSBC mælir með íslenskum hlutabréfum

Til marks um þennan aukna áhuga er ansi grænt að líta yfir kauphöllinni það sem af er degi og er heildarvelta hennar um 2,8 milljarðar. Þá hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 0,8% og Síminn um 4% og Arion um 2,3% svo eitthvað sé nefnt. 

Stikkorð: Króna hlutabréf