*

fimmtudagur, 1. október 2020
Innlent 16. september 2020 16:12

Krónan og vísitalan lækka

Hlutabréf Icelandir lækkuðu mest og standa nú í 1,1 krónu. Gengi krónunnar veiktist gagnvart pundinu um 1,05%.

Ritstjórn

Úrvalsvísistalan (OMXI10) lækkaði um 0,66% í viðskiptum dagsins og stendur hún í 2.132 stigum. Líkt og í gær voru lítil viðskipti í kauphöllinni í dag sem námu alls 524 milljónum króna. Mest velta var með hlutabréf Reitis um 190 milljónir og lækkuðu bréf félagsins um 0,56% og standa nú í 44,65 krónum.

Mest lækkuðu hlutabréf Icelandair um tæplega sex prósent og standa nú í 1,1 krónu hvert. Hlutafjárútboð félagsins stendur nú yfir og líkur á morgun en útboðsgengi félagsins er ein króna á hlut. Alls námu viðskipti með bréf Icelandair þrjár milljónir.

Næst mest lækkuðu hlutabréf Arion banka um 1,05% og standa þau í 75,2 krónum. Bréf félagsins hafa hækkað um ríflega 7,3% síðasta mánuðinn.

Þriðja mesta veltan var með hlutabréf Haga, fyrir 49 milljónir. Athygli vekur að einungis er um að ræða ein viðskipti.

Gengi krónunnar lækkaði gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum, ólíkt þróun undanfarna daga. Mest lækkaði krónan gagnvart breska pundinu um 1,09% sem fæst nú á ríflega 177 krónur. Að auki lækkaði hún gagnvart japanska jeninu um 0,76% og norsku krónunni um 0,53%.

Sjá einnig: Inngrip SB hafin og krónan styrkist

Fyrirhuguð inngrip Seðlabankans hófust á mánudag í vikunni þar sem bankinn hyggst selja viðskiptavökum þrjár milljónir evra, andvirði 482 milljónir króna, hvern viðskiptadag til mánaðaloka. Seðlabankinn áskilur sér fullan sveigjanleika til þess að aðlaga fjárhæð, tíðni og framkvæmd sölunnar til að tryggja skilvirkni aðgerðarinnar.