*

sunnudagur, 8. desember 2019
Innlent 26. mars 2019 13:31

Krónan og Wow

Sumir greinendur telja að brotthvarf Wow gæti þýtt 5-10% gengisfall en aðrir telja að áhrifin yrðu óveruleg.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Óvissa tengd framtíð Wow air hefur haft í för með sér vangaveltur um hvaða áhrif brotthvarf flugfélagsins gæti haft á gengi krónunnar.

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, og Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri Reykjavík Economics, telja gengi krónunnar geta veikst um frá 5% og upp í 10% og verðbólga kunni að hækka úr 3% í 5-6% að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Það hefði í för með sér að gengi krónunnar sem nú stendur í 137 krónum á hverja evru gæti farið upp í 150. Gengi krónunnar hefur þegar lækkað um 10% gagnvart evru frá því að fyrst var greint frá skuldabréfaútboði Wow air í ágúst 2018, kostaði hver evra nærri 125 krónur.

Erlendir fjárfestar vegi á móti

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, tekur ekki undir þessar áhyggjur. Hann telur að ef krónan veikist á næstunni gæti það aukið áhuga erlendra aðila að fjárfesta hér á landi og dregið úr áhuga innlendra aðila að fjárfesta erlendis. Það sé til þess fallið að halda aftur að gengisstyrkingu. Þá bendir Jón Bjarki á að lækki gengi krónunnar sé líklegt að fleiri ferðamenn hafi áhuga á að koma til Íslands sem aftur haldi aftur að veikingu á gengi krónunnar. Greiningardeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir að flugmarkaðurinn bregðist nokkuð hratt við hverfi Wow af markaði.

Netverslun og fastaeignamarkaður haldi aftur að verðbólgu

Undir þetta tekur Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá Gamma, í færslum á Twitter. Áhrifin á gengin krónunnar verði minni en Gústaf og Magnús hafi spáði. „Gjaldeyrissköpun landsins verður sem fyrr mjög sterk en heimili og fyrirtæki munu rífa í neyðarhemilinn og vöru- og þjónustuinnflutningur falla,“ segir Agnar.

Erlendir fjárfestar séu líklegri til að fjárfesta hér á landi í meira mæli. Kólnun fasteignamarkaðarins haldi aftur að verðbólgunni auk þess muni innlend fyrirtæki ekki koma launahækkunum út í verðlag nema að hluta. „Af hverju ættu innlendir neytendur að taka á sig hækkandi íslenskan launakostnað verslunar möglunarlaust þegar í flestum tilfellum eru leiðir til að sneiða hjá honum gegnum netverslun, eða önnur fyrirtæki með minni yfirbyggingu og launakostnað,“ spyr Agnar.

Stikkorð: krónan Wow air