Á morgun býður Krónan viðskiptavinum sínum í nýja verslun í Austurveri við Háaleitisbraut. Þetta verður  23. Krónuverslunin sem opnar og sú þriðja þetta haustið. Krónan í Austurveri tekur við af Nóatúni sem var í þessu verslunarrými í 25 ár.

Eins og í öðrum Krónuverslunum tekur hönnun verslunarrýmisins mið af umhverfismarkmiðum sem Krónan hefur sett sér. Kælar eru lokaðir, mikil áhersla er lögð á ferskvöru og grænmeti og ferskir ávextir taka á móti viðskiptavinum þegar gengið er inn.

Eins og áður segir tekur Krónan í Austurveri við af versluninni Nóatún sem þjónaði þar viðskiptavinum í 25 ár. Vörur Nóatúns voru oftar en ekki ómissandi liður í jólainnkaupum margra fjölskyldna og til að halda í góðar hefðir mun Krónan áfram bjóða valdar vörur sem viðskiptavinir Nóatúns kannast við og verða þær sérmerktar Nóatúni.

Meðal sérmerktra vara verður Nóatúns hamborgarhryggurinn sem hefur um jól verið ein vinsælasta vara vörumerkisins.

„Við höfum nú opnað þrjár nýjar Krónu-verslanir á stuttum tíma en Krónan í Austurveri tekur auðvitað við af Nóatúni sem átti sinn sess hjá viðskiptavinum í hverfinu þarna í kring og víðar,“ segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.

„Við höfum því lagt okkur fram um að Krónan verði frábær viðbót fyrir hverfið með enn lægra verði en áður – um leið og við höldum í vinsælustu vörur Nóatúns. Við hlökkum til að taka á móti fólkinu í hverfinu sem og öllum sem vilja eiga við okkur viðskipti.“