*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 9. febrúar 2019 15:19

Krónan opnar netverslun á árinu

Í boði að sækja matinn í N1 en stefnt verður að opnun fyrstu verslunarinnar með eldsneytisdælum í Norðlingaholti.

Höskuldur Marselíusarson
Gréta María Grétarsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri Krónunnar í kjölfar sameiningar Festi við N1, en hún sér mikil tækifæri í samþættingu félaganna til að einfalda líf viðskiptavina sinna.
Haraldur Guðjónsson

Nýr framkvæmdastjóri Krónunnar, Gréta María Grétarsdóttir, sér fram á enn frekari sjálfvirkni og miklar breytingar í verslunum á næstu árum, þar með talið að afgreiðslukassar geti orðið óþarfir. Félagið er með netverslun í undirbúningi og ýmsar lausnir fyrir viðskiptavini að fá sent heim sem og að sækja vörur sem búið er að panta, þar með talið í stöðvar N1.

Hún segir samþættingu félaganna eftir sameiningu ganga vel og frekari tækifæri séu í boði, þá á meðal sé opnun fyrstu Krónuverslunarinnar með eldsneytisstöð á lóðinni í kortunum. Margar aðrar nýjungar séu í farvatninu, með auknu framboði á einföldum kostum í matinn, en einnig hafi mikill árangur náðst í baráttunni við matarsóun og fyrir öðrum umhverfismálum.

Öll dagvara komin undir Krónuna

Gréta María Grétarsdóttir, sem verið hefur fjármálastjóri Festi frá 2016, tók nýlega við sem framkvæmdastjóri Krónunnar, en það var liður í skipulagsbreytingum í félaginu eftir sameininguna við N1. Segir hún óhemju mörg tækifæri liggja í sameiningunni fyrir félagið og nú þegar sé búið að ná hagræðingu með samþættingu innkaupa á dagvöru fyrir félagið undir Krónunni. 

„Það er nú ekki langt síðan sameiningin var samþykkt, eða 1. september síðastliðinn, en tíminn er fljótur að líða og á þessum tíma höfum við lagt mesta áherslu á að ná góðri samlegð,“ segir Gréta María sem segir ekki hægt að bera sameiningu N1 og Festi, sem innihéldu fyrir Krónuna, Elko, Nóatún og Bakkann vöruhótel, við aðrar fyrirtækjasameiningar sem ekki hafa gengið jafn vel. 

„Við höfum til dæmis sameinað stoðsvið eins og tölvumálin, mannauðsmálin, rekstur fasteignasafna félaganna og allt utanumhald um það, viðhald og svo framvegis, og svo auðvitað náð talsverðri hagræðingu í þjónustusamningum. Enda hjálpar það til við að ná betri kjörum að vera með stærri samstæðu, og má þar nefna t.d. flutninga, þrif, tryggingar, tölvu- og símamál ásamt annarri úthýsingu.“

Hægt að sækja vörurnar á N1 stöðvarnar

Gréta María tekur undir með Eggerti Þór Kristóferssyni forstjóra Festi, áður N1, í samtali við Viðskiptablaðið í sumar um að til dæmis verði hægt að sækja vörur úr Krónunni á eldsneytisstöðvar N1, til að mynda á leið heim úr vinnu. 

„Ég held að það sé ekki nokkur spurning að það liggja tækifæri í staðsetningunum sem N1 er með. Okkar áhersla er að einfalda fólki lífið, þannig að ef það einfaldar lífið fyrir viðskiptavini okkar að geta verið búinn að panta vörurnar og sótt þær á leiðinni heim, þar með talið á N1 til að spara sér tíma, þá munum við bjóða upp á það,“ segir Gréta María sem segir félagið fljótlega bjóða upp á að hægt verði að sækja vörur í verslanir Krónunnar sem þegar er búið að leggja inn pöntun fyrir á netinu, en nýlega hóf keppinauturinn Nettó að bjóða upp á svipaða lausn.

„Það er ekki alveg búið að útfæra hvernig það verður gert, hvort það verði í kössum eins og þeir gera það, eða í kælum, né heldur komin dagsetning, en það er ekki langt í það, þetta verður í boði á þessu ári. Þetta tengist allt vefverslun sem við erum að undirbúa, en miðað við verðmódelið sem við erum að keyra á, þar sem við erum að bjóða ódýrar vörur á samkeppnishæfu verði, þá munum við ekki geta sent frítt heim. Eitt af því sem við þurfum að skoða til framtíðar er hvernig við getum betur nýtt þá fermetra sem við erum með í stærri verslunum okkar. 

Við gerum ráð fyrir að til lengri tíma þá muni hluti af matvöruverslun færast í meira mæli á netið, þar sem fólk komi kannski við og sæki vöruna á leiðinni heim. Þá er fólk kannski fyrst og fremst að sækja vörur eins og morgunkorn, klósettpappír og hreingerningarvörur og annað slíkt sem tekur svolítið pláss. Þá er spurningin hvað getum við gert fyrir þig þegar þú vilt sækja kjötið þitt og ávextina, því þú vilt frekar koma til okkar og velja jarðarberjaboxið þitt heldur en morgunkornspakkann.“ 

Fyrsta búðin sambyggð eldsneytisstöð verði í Norðlingaholti

Krónan er hvergi nærri hætt að opna nýjar verslanir en á fimmtudaginn síðastliðinn 7. febrúar, opnaði ný verslun hennar í Skeifunni, þar sem verslun Víðis var áður til húsa. Auk þess sér Gréta María fyrir sér samþættingu verslana fyrirtækisins og stöðva N1, líkt og Eggert Þór Kristófersson, forstjóri félagsins nefndi í samtali við Viðskiptablaðið í sumar.

„Með því að setja sjálfsafgreiðsludælur þar sem þær rúmast við verslanir er það bæði tækifæri til samþættingar og í takt við stefnu Krónunnar að einfalda líf fólks. Við erum til dæmis að horfa á að setja upp verslun Krónunnar í Norðlingaholti, á lóð sem N1 á þar sem eru sjálfsafgreiðsludælur, og yrði það þá fyrsta slíka samþættingin,“ segir Gréta María sem er bjartsýn á framhaldið, en á næstu vikum mun skrifstofa Krónunnar, færast á Dalveginn, þar sem Festi og N1 eru til húsa í dag.

„Þar verður móðurfélagið, Krónan og N1, Elko er svo nú þegar í Lindunum sem er nánast í næsta húsi. Við erum mjög þakklát og ánægð með að margt af því sem við erum að gera vekur rosalega jákvæð viðbrögð viðskiptavina okkar. Við finnum að lausnir eins og biti fyrir börnin, þar sem börnin geta fengið ávöxt ókeypis til að japla á þegar koma inn í búðina, og það að fjarlægja sælgæti af afgreiðslukössum og nú það síðasta að fjarlægja alla nammibari, fellur í góðan jarðveg.

Ég er foreldri eins og svo margir og við þekkjum það að svona hlutir auðvelda manni að taka börnin með sér í búðina. Þetta sýnir sig í að við vorum um daginn að skora efst í ánægjuvoginni fyrir matvöruverslanir, án þess að við höfðum haft nein markmið um að skora hátt, líkt og Sjóvá gerði og náði að vera efst með markvissu átaki. Núna er keppnisskapið komið og við erum búin að setja markmið um að verða efst í smásölu. Þó að það gerist kannski ekki á einu ári, þá ætlum við okkur þangað.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.