*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 27. október 2021 13:01

Krónan opnar verslun í Borgartúni

Krónan mun opna nýja verslun í Borgartúni 26 á fyrri hluta næsta árs. Fylgifiskar loka sinni verslun á miðvikudaginn næsta.

Ritstjórn
Krónan mun opna nýja verslun í Borgartúni 26 á fyrri hluta næsta árs.
Aðsend mynd

Krónan áætlar að opna nýja verslun í Borgartúni 26 á fyrri hluta næsta árs. Verslunarrýmið verður alls um 700 fermetrar að stærð auk bakrýma og munu framkvæmdir á rýminu hefjast fljótlega. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Fylgifiskar hafa rekið verslun í Borgartúni 26 frá árinu 2016 en Guðbjörg Glóð Logadóttir, eigandi fyrirtækisins, staðfesti við Vísi að versluninni verði lokað á miðvikudaginn næsta, 3. nóvember. Starfsemi Fylgifiska verður nú öll undir einum hatti á Nýbýlavegi og ráðist verður í endurbætur á þeirri verslun.

Matvöruverslunin í Borgartúni verður 25. verslun Krónunnar. Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar sagði við Viðskiptablaðið í síðustu viku að einnig væri fyrirhugað að opna nýja verslun á Akureyri haustið 2022. Þá mun ný og stærri verslun opna á nýjum stað í Skeifunni, sem tekur við af þeirri sem þar er í dag.  

Sjá einnig: Tæknin að bylta dagvörumarkaði

„Við hlökkum mikið til að mæta aftur til leiks á þessu líflega svæði á besta stað í Reykjavík sem er í mikilli uppbyggingu. Enn sem áður verður í boði fjölbreytt vöruúrval á góðu verði þar sem lögð verður áhersla á ferskvöru, hollustu og umhverfismál. Svo munum við að sjálfsögðu innleiða þar snjöllu afgreiðslulausnina okkar Skannað og skundað. Það verður gott að komast aftur í hverfið - og vonum við að sú tilfinning sé gagnkvæm hjá okkar viðskiptavinum,” segir Ásta.

Stikkorð: Krónan Fylgifiskar Borgartún 26