Gengi íslensku krónunnar styrktist um 3,3 prósent í ágústmánuði. Sú hraða styrking krónunnar sem varð í ágúst markar nokkur vatnaskil, því áður hafði gengi krónunnar haldist nokkurn veginn stöðugt frá upphafi árs 2014.

Gengi krónunnar hefur haldist áfram að styrkjast það sem af er degi og stendur gengisvísitala krónunnar nú í um 196,3 stigum. Það er athyglisvert að bera það gildi saman við gengisvísitöluna eins og hún var í september og október 2008. 30. september 2008, daginn eftir að tilkynnt var að ríkið hygðist taka yfir 75% eignarhlut í Glitni, var lokagildi gengisvísitölunnar 196,7 stig. Það er um 0,4 stigum meira en gengisvísitalan stendur í núna.

Gengisvísitalan flökti mjög dagana á eftir, en íslenski gjaldeyrismarkaðurinn var þá í miklu uppnámi. Um miðjan október náði vísitalan ákveðnum stöðugleika í 199-200 stigum. Þá hafði Fjármálaeftirlitið tekið yfir stjórn allra viðskiptabankanna.

Síðan þá hefur gengisvísitalan stöðugt verið yfir 200 stigum, ef frá eru talin stutt tímabil veturinn 2008-2009. Hæst fór vísitalan í 239,6 stig þann 26. ágúst 2009. Síðan þá hefur nafngengi krónunnar styrkst um 18 prósent.

Raungengi krónunnar hefur styrkst meira, en þar er tekið tillit til verðlags- og launabreytinga á tímabilinu.