*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 28. janúar 2018 12:01

Krónan ræður við útstreymi

Hagfræðistofnun telur gjaldeyrismarkaðinn ráða við fjármagnsútstreymi vegna fjárfestinga lífeyrissjóðanna erlendis.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Hagfræðistofnun telur lítinn vafa á því að gjaldeyrismarkaðurinn og íslenska krónan ráði við útstreymi fjármagns vegna aukinna fjárfestinga lífeyrissjóðanna erlendis. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um uppbyggingu lífeyrissjóða í atvinnulífinu.

Eftir afnám gjaldeyrishafta í mars á síðasta ári hafa fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis aukist. Vísbendingar eru um að fjárfestingarnar hafi numið 120-130 milljörðum króna. Flestir sjóðirnir stefna að því að fjárfesta 30-40% af eignum sínum á erlendum mörkuðum í ár, að því er kemur fram í skýrslunni. Sjóðirnir gætu komið vægi erlendra eigna í eignasöfnum sínum upp í það hlutfall á sex til átta árum án þess að selja innlendar eignir.

Ef reiknað er með 30-60 milljarða króna flæði úr lífeyrissjóðunum til útlanda á ári munu erlendar eignir þeirra fara úr 700-800 milljörðum króna í um 2.000 milljarða árið 2030 og í allt að 3.500 milljarða árið 2040. Á næstu árum er ef til vill raunhæfara að útflæðið verði heldur meira og sjóðirnir fjárfesta erlendis fyrir liðlega 100 milljarða á ári. 

Undanfarið ár hefur velta á markaði með krónur verið ríflega 500 milljarðar króna og ræður markaðurinn því við miklar hreyfingar á eignasafni lífeyrissjóða. „Sala sjóðanna á íslenskum verðbréfum og kaup þeirra á erlendum bréfum breyta út af fyrir sig engu um framboð á krónum og öðrum gjaldmiðlum eða sókn í þá, nema þá rétt í svip,“ segir í skýrslunni.

Hugsast getur að breytt eignasamsetning lífeyrissjóðanna veiki krónuna, en sennilega yrðu þau áhrif ekki mikil og líkast til minnka þau með tímanum.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is