*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 13. mars 2018 13:55

Krónan setur upp sjálfsafgreiðslukassa

Fyrstu sjálfsafgreiðslukassarnir verða settir upp í verslun Krónunnar í Nóatúni og á Hvolsvelli.

Höskuldur Marselíusarson
Krónan hefur áður gert tilraun með uppsetningu sjálfsafgreiðslukassa, en nú er verið að setja upp kassana í Nóatúni 17.
Aðsend mynd

Þessa dagana er verið að setja upp sjálfsafgreiðslukassa í Krónunni í Nóatúni, en Jón Björnsson forstjóri Festa segir að stefnt sé að því að setja þá upp í fjórum verslunum fyrirtækisins næstu mánuðina.

„Við erum komnir með græjurnar til þess að setja þetta upp í fjórar búðir,“ segir Jón en hugmyndin er að nota kassana til að létta á álagstoppum þegar margir vilja versla, oft kannski fáa hluti í einu. „Við ætlum að byrja á tveimur verslunum innan mánaðar, en svo erum við tilbúin í fyrsta fasa í aðrar tvær ef allt gengur vel.“

Reyndu áður fyrir 12 árum

Margir Íslendingar þekkja sjálfsafgreiðslukassa erlendis, en hingað til hafa þeir ekki náð útbreiðslu hér á landi.

„Við höfum prófað að setja þetta upp áður, fyrir 12 árum síðan. Það gekk ekki vel,“ segir Jón en hann telur hvorki fyrirtækið né Íslendinga hafa verið tilbúna í þetta þá. „Tæknin og notendaviðmótið var bara ekki eins gott og það er orðið í dag.“

Settar upp í búðum sem ferðamenn sækja í

Fyrstu 7 sjálfsafgreiðslukassarnir verða settir upp eins og áður segir í verslun Krónunnar í Nóatúni annars vegar og hins vegar á Hvolsvelli, en Jón segir að þessar verslanir hafi verið valdar meðal annars vegna þess að ferðamenn sem sæki þangað í nokkrum mæli séu opnir fyrir notkun þeirra.

„Þá komast kassarnir í ákveðna notkun en hugsunin með þessu er fyrst og fremst til að létta undir á álagstoppum í traffíkinni,“ segir Jón en hann segir verslanirnar tvær þó töluvert ólíkar þegar kemur að flæði.

„Kassarnir í Nóatúni verða alltaf opnir því þar er stöðug traffík en þar eru topparnir kannski um 15 viðskiptavinir, og getur þá einn starfsmaður farið á milli og aðstoðað fólk og fylgst með sjálfsafgreiðslunni.“

Þjónustukassar alltaf opnir 

Í báðum verslunum verður þó áfram alltaf í forgangi að hafa þjónustukassann opinn, en á Hvolsvelli verða sjálfsafgreiðslukassarnir ekki opnir nema á álagstímum. „Á Hvolsvelli verða sjálfsafgreiðslukassarnir bara opnir ef þarf, en þar er traffíkin róleg svona 70 til 80 prósent af deginum, en svo koma rútur þá eru kannski komnir 100 viðskiptavinir í einu.“

Jón segir að það verði alltaf starfsmaður sem fylgist með kössunum en hann hafi samt engar áhyggjur af því að þetta auki hættu á þjófnaði. „Það er ekki reynslan annars staðar, en við erum einnig með mjög öflugt myndavélakerfi,“ segir Jón og útskýrir hvernig kerfið virkar.

„Ef þú ferð í gegnum skannann í sjálfsafgreiðslukerfinu þá þekkir vigtin vöruna. Vigtin veit hvað varan er þung svo þegar hún er lögð á vigtina getur kerfið sagt til um hvort raunverulega sé um þessa vöru að ræða.“

Kostar á við venjulegan kassa

Jón segir að kostnaðurinn við kassana sé í raun svipaður og á venjulegum afgreiðslukassa, en fyrirtækið er í samstarfi við Advania við uppsetningu kerfisins.

„Munurinn er hins vegar sá að þú ert með mun fleiri svona kassa í hverri verslun, því hugmyndin er að gefa þeim tækifæri sem eru kannski ekki að kaupa mikið, kannski tvo til þrjá hluti að fara hraðar í gegn. Því í stað þess að vera bara með opið á kannski tveimur kössum með tveimur starfsmönnum ertu allt í einu með fimm kassa opna.“