Gengi krónunnar hækkaði nokkuð í morgun en sú hækkun hefur gengið snarlega til baka. Gengi krónu hefur veikst um 0,08% og er 121,9 við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

?Gengi krónunnar lækkaði talsvert í gær [1,8%] og svo virðist sem rekja megi þá lækkun til óróa í kjölfar ítrekunar matsfyrirtækisins Fitch á að enn séu neikvæðar horfur fyrir lánshæfismat ríkissjóðs, þótt lánshæfiseinkunnir ríkisins hafi verið staðfestar. Síðustu vikur hefur krónan átt vísan stuðning í kring um vísitölustigið 120 en engan slíkan stuðning var að finna í gær er spákaupmenn hófu að kaupa gjaldeyri.

Verðlækkun á hlutabréfamarkaði að undanförnu hefur sennilega skapað þrýsting til gengislækkunar krónunnar þar sem menn loka stöðum og greiða upp erlend lán. Eftir símafund Fitch um miðjan dag í gær hækkaði krónan tímabundið en sú hækkun gekk að hluta til baka,? segir greiningardeild Glitnis.

?Á móti gengislækkun vega ýmsar fréttir sem verða að teljast jákvæðar fyrir krónuna. Skýrsla Merrill Lynch um íslensku bankanna var til dæmis tiltölulega jákvæð og vel heppnað skuldabréfaútboð Glitnis í Bandaríkjunum verða að teljast góð tíðindi fyrir krónuna. Hlutafjárútboð KB banka fyrir erlenda stofnanafjárfesta er einnig til þess fallið að styðja við gengi krónunnar ef það heppnast vel,? segir greiningardeildin.