Eftir alllanga veikingarhrinu hafa litlar breytingar orðið á gengi krónunnar síðan í annarri viku júnímánaðar. Evran hefur á þessum tíma verið á bilinu frá 177-181 krónu og dollarinn frá 125-129 krónu.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en gengisvísitalan hefur verið á bilinu 230-234 allan júlímánuð og hefur flöktið í henni verið mun minna en fyrr á árinu.

„Það hefur því aukinn stöðugleiki skapast í krónunni undanfarið,“ segir í Morgunkorni.

„Stöðugleikinn er vegna afar lítilla viðskipta á gjaldeyrismarkaðinum. Veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyri hefur verið rétt tæplega 240 m.kr. á dag frá því í byrjun júní. Seðlabankinn var með inngripum sínum á gjaldeyrismarkaði með um 40% af veltunni á þeim markaði í júní og hefur bankinn áfram beitt inngripum núna í júlí.“

Greining Íslandsbanka segir að það hafi haft sitt að segja með það að skapa umræddan stöðugleika krónunnar en því til viðbótar séu gjaldeyrishöftin, umtalsverður afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd og talsverður munur á innlendum og erlendum vöxtum að hjálpa til við að hindra krónuna frá frekari lækkun.

Þá kemur einnig fram að á aflandsmarkaði hafi krónan hins vegar sveiflast aðeins meira en á innlendum markaði og hefur evran kostað  á bilinu 210 krónur til 230 krónur á þeim markaði síðan í upphafi júní síðastliðnum. Viðskipti á þeim markaði eru lítil og strjál eftir því sem fram kemur í Morgunkorni.

„Krónan virðist nú hafa náð tímabundnu jafnvægi á stað þar sem verðgildi hennar er afar lágt sögulega séð,“ segir í Morgunkorni.

„Raungengi krónunnar hefur aldrei verið jafnt lágt og nú og ljóst er að fyrir efnahag fyrirtækja og heimila í landinu þá eru þetta ekki ákjósanlegur staður fyrir krónuna. Þetta er heldur ekki ásættanlegur staður fyrir stjórnvöld, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Seðlabankann sem sett hafa ekki bara stöðugleika krónunnar á oddinn heldur einnig styrkingu hennar.“