Íslenska krónan hefur styrkst um 1,23 prósent það sem af er degi. Mest er styrkingin gagnvart dollar, 1,39 prósent, og evru, 1,35 prósent.

Seðlabankinn hefur komið þeim skilaboðum til viðskiptabankanna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, að þeir megi ekki tjá sig um hvort Seðlabankinn hafi beitt inngripum á markaði.

Upplýsingar um þátttöku Seðlabankans á gjaldeyrismarkaðnum birtast hins vegar á vef Seðlabankans að þremur viðskiptadögum liðnum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kom Seðlabankinn upplýsingunum formlega á framfæri fyrir skömmu.

„Það eina sem ég get staðfest er að upplýsingar um viðskipti á gjaldeyrismarkaði birtast á vef Seðlabankans að nokkrum viðskiptadögum liðnum," sagði Stefán Jóhann Stefánsson frá Seðlabanka Íslands í samtali við Viðskiptablaðið.

Síðastliðinn föstudag, eftir vaxtaákvörðun bankans, beitti Seðlabankinn inngripum á gjaldeyrismarkaði eftir töluverða veikingu krónunnar framan af degi. Það sem af er ári hefur Seðlabankinn keypt tæplega 15 milljarða króna á gjaldeyrismarkaði og varið til þess ríflega 80 milljónum evra.