Eftir skammvinnt bakslag í upphafi vikunnar hefur krónan haldið áfram að styrkjast jafnt og þétt. Það sem af er morgni nemur styrkingin hálfu prósentustigi samkvæmt upplýsingum frá Glitni.

Krónan er nú á svipuðum slóðum og hún var eftir styrkingarhrinurnar tvær í upphafi desembermánaðar og á seinni hluta janúar síðastliðins. Þegar Greiningardeild Glitnis sendir út Morgunkorn sitt (kl.11:30) kostar evran 146 kr. og Bandaríkjadollar 114 kr. en vísitala samkvæmt þröngri viðskiptavog, sem tekið hefur við hlutverki gengisvísitölu í tölum Seðlabanka, stendur nú í 194,5.

"Ekki liggur fyrir hvort, og þá í hvaða mæli, Seðlabankinn hefur haft hönd í bagga með styrkingu vikunnar, en miðað við umfang inngripa þeirra undanfarna tvo mánuði er ekki hægt að útiloka slíkt," segir greiningardeildin.