*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 18. október 2018 14:22

Krónan styrkist á ný

Eftir að hafa haldið að sér höndum hafa ýmsir innlendir aðilar nú nýtt sér veikingu krónunnar og selt gjaldeyri.

Ritstjórn
AFP

Íslenska krónan hefur styrkst um 1,68% gagnvart evru og er kaupgengi evrunnar nú 134,45 krónur. Eftir veikingu síðustu daga sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá er krónan byrjuð að styrkjast í dag á ný gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á gjaldeyrismarkaði má skýra styrkingu dagsins af því að innlendir aðilar sem hafi beðið með að selja gjaldeyri síðustu daga hafi gert það í dag.

Að sögn gjaldeyrismiðlara er töluvert meira velta á bak við styrkingu dagsins en hefur verið á bak við veikingu síðustu daga.
Þannig hefur styrkingin gagnvart bresku sterlingspundi verið 1,74% og er kaupgengið nú 153,16 krónur fyrir pundið.

Styrkingin er mest gagnvart sænskri krónu eða 1,83% og er kaupgengi hennar 13,008 íslenskar krónur, en minnst er styrkingin gagnvart Bandaríkjadal eða 1,38%. Kaupgengi Bandaríkjadals er nú 116,94 krónur.