Krónan styrktist talsvert þegar leið á daginn eftir að hafa verið í veikingarfasa framan af degi. Samkvæmt gjaldeyrisborði Landsbankans endaði vísitalan í 221 og hafði styrkst um 1,17% í dag. Hugsanlega gæti þar haft áhrif að Greining Íslandsbanka benti á í Morgunkorni sínu að krónan hefði talsvert styrkst undanfarið á aflandsmarkaði.

Þar var bent á að munurinn nemur 16% og hefur hann ekki verið minni frá því í upphafi árs. Í millitíðinni hafa gjaldeyrishöft hérlendis hins vegar verið hert töluvert, sem að öðru jöfnu ætti að auka á einangrun þessarra tveggja markaða hvors frá öðrum.

Einn sérfræðingur sem rætt var við taldi að ef þessi mikla styrking aflandsmarkaðar (offshore-krónunnar) gengur ekki til baka á næstu vikum muni hún á endanum hjálpa gengi krónu hér innanlands. "Mér finnst margir á markaði stundum full ákafir þessa daga í að tala niður þá jákvæðu þætti sem þó skjóta upp kollinum á mörkuðum og skoðanir eru raunar skiptar um ástæðurnar fyrir styrkingunni utan landsteinanna," sagði viðkomandi sérfræðingur.

Íslandsbanki benti á í Morgunkorni að undanfarinn mánuð hefur króna styrkst um 40% gagnvart evru á aflandsmarkaði. Á sama tíma hefur gengi krónu gefið eftir um tæp 3% gagnvart evru á innlendum gjaldeyrismarkaði. Evran kostar nú u.þ.b. 200 kr. á fyrrnefnda markaðinum en ríflega 172 kr. á þeim síðarnefnda.