Gengisvísitalan er nú 150,4 stig samkvæmt vef Landsbankans og stendur krónan því styrkst um 0,1% frá opinberri skráningu krónunnar í gær. Opinbert gengi Seðlabankans var kl. 11 í morgun 150,4 stig en var í gær 150,3 stig.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun íslensku krónunnar frá áramótum samkvæmt gengisvísitölu Seðlabankans.

Þegar þetta er skrifað, kl. 11:10 stendur Evran í 117,36 krónum, Bandaríkjadalur í 75,6 krónum og Sterlingspund í 149,2 krónum.

Þá stendur svissneskur franki í 74,2 krónum og japanskt jen í 0,73 krónum.

Greiningadeild Glitnis spáir því að gengisvísitala erlendra gjaldmiðla haldist nærri núverandi vísitölugildi (um 150-151) að meðaltali á öðrum fjórðungi ársins en reiknar þó með því að áfram verði talsverðar sveiflur í gengi krónunnar á þeim tíma.

„Aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, lítil áhættulyst innlendra sem erlendra fjárfesta, skert aðgengi að lánsfé og þrengingar á innlendum gjaldeyrisskiptamarkaði hafa stuðlað að veikingu krónunnar að undanförnu og reiknum við með að þessir þættir verði ráðandi í þróun gengis krónunnar enn um sinn. Við spáum því að krónan taki að styrkjast á sumarmánuðum þessa árs og að krónan styrkist hægt og bítandi út spátímann eftir því sem dregur úr ytra ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, áhættulyst fjárfesta eykst og hagvaxtarhorfur glæðast,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Þá reiknar greiningadeildin með því að gengisvísitalan verði nærri 135 stigum í árslok, Bandaríkjadalur í 67 krónum og evran verði komin í 104,5 krónur.