Gengi krónunnar hefur styrkst um 1% það sem af er degi og stendur gengisvísitalan nú í tæpum 225 stigum. Gengið hefur veikst nokkuð viðstöðulítið síðan í nóvember í fyrra og stóð gengisvísitalan í rúmum 227 stigum um mánaðamótin. Þegar gengisveiking krónunnar hófst í fyrra stóð vísitalan í tæpum 213 stigum.

Fátt liggur fyrir um ástæðu styrkingarinnar nú, sem bæði kemur greiningaraðilum sem Viðskiptablaðið hefur rætt við á óvart og þykir hún óvenju mikil. Þeir telja þó að vikuleg inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á hverjum þriðjudegi skýri styrkinguna. Gjaldeyriskaup Seðlabankans nema 1,5 milljónum evra í viku, um 247 milljónum króna á gengi dagsins. Ekki liggur heldur fyrir um það hversu mikil velta er á bak við styrkinguna.

Gjalddagar á erlendum lánum

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, bendir á að fyrir mánaðamótin síðustu hafi útflæði á gjaldeyri valdið veikingu krónunnar. Því til staðfestingar bendir hann á að velta á millibankamarkaði hafi numið tveimur milljörðum króna á dag í nokkra daga skömmu fyrir mánaðamót, og þá nam veltan einum milljarði króna 28. febrúar síðastliðinn. Daginn eftir ríkti algjör ládeyða á gjaldeyrismarkaði. Hann telur veltuna í febrúar skýrast af því að einhverjir hafi staðið frammi fyrir gjalddaga á erlendum lánum um mánaðamótin enda hafi dregið mikið úr útflæði á gjaldeyri síðustu daga.

„Ef einhverjir hafa verið að kaupa gjaldeyri til að mæta gjalddaga lána þá skýrir það veikinguna. En það verður forvitnilegt að sjá hvort þetta sé snúningspunktur og hvort gengi krónunnar taki aðra stefnu nú,“ segir hann.