Gengi krónunnar styrktist um 8,4% á fyrsta ársfjórðungi og fór gengisvísitalan í 119,15 stig á föstudaginn, síðasta dag fjórðungsins, úr 129,18 stigum í árslok 2006, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

Segir hún að styrkingin hafi verið nokkuð jöfn fyrstu tvo mánuðina en gengið hafi lítið breyst frá í marsmánuði. "Á sama tímabili í fyrra veiktist gengi krónunnar um 12,2%, en þá var gengi krónunnar mun sterkara um áramót, 104,90 stig," segir greiningardeildin.

Styrkingin kemur meðal annars til vegna útgáfu jöklabréfa, sem hefur verið töluverð á fjórðungnum, að mati greiningardeildarinnar. Jöklabréfaútgáfan nam samtals 121 milljarði króna á föstudaginn en auk þriggja milljarða króna útgáfu sama dag, þá voru bréf fyrir 35 milljarða króna á gjalddaga. Til samanburðar, segir greiningardeildin, voru gefin út jöklabréf í fyrra fyrir 175 milljarða króna.