Tilkynning Seðlabanka Íslands um að bankinn hyggist selja allt að 4% af gjaldeyrisforða bankans, andvirði um 40 milljarða króna, með reglubundnum hætti fram að áramótum virðist hafa farið vel ofan í markaðinn. Íslenska krónan styrkti stöðu sína gagnvart helstu gjaldmiðlum í dag.

Regluleg sala bankans á gjaldeyri mun hefjast næstkomandi mánudag en með því er stefnt að aukinni dýpt markaðarins og bættri verðmyndun. Þrjár milljónir evra verða seldar viðskiptavökum í byrjun dags út þennan mánuð. Í lok hvers mánaðar mun bankinn tilkynna umfang gjaldeyrissölu komandi mánaðar.

Sjá einnig: Boðar 40 milljarða gjaldeyrissölu

Í dag veiktist pundið um 4,6% gagnvart krónunni, dollarinn og norska krónan um rétt ríflega þrjú prósent og sænska krónan og jenið voru á svipuðu reiki. Evran féll um tæp 2,6 prósent gagnvart krónu og svipaða sögu er að segja af svissneska frankanum.

„Seðlabankinn áskilur sér því fullan sveigjanleika til að aðlaga fjárhæð, tíðni og framkvæmd sölunnar til að tryggja skilvirkni aðgerðarinnar,“ segir í tilkynningu bankans frá í gær.