Krónan styrktist nokkuð í júlí á móti gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda okkar. Í lok mánaðar stóð hún í 158,4 krónum á móti evru í samanburði við 161,3 í lok júní, segir í Hagsjá Landsbankans.

Alls styrktist krónan um 1,8% í mánuðinum á móti  evru, 4,1% á móti Bandaríkjadal, 4,1% á móti breska  pundinu, og 1,1% á móti norsku krónunni.  Gengisvísitalan lækkaði um 2,5% í mánuðinum.

Heildarvelta yfir meðaltali
Heildarvelta á millibankamarkaði í mánuðinum var 17,8 milljarðar króna. eða 111 milljónir evra, sem er nokkuð meira en meðaltal seinustu 12 mánuði þar á undan, en á því tímabili var veltan að meðaltali 15 milljarðar króna. Hagdeild Landsbankans segir að af 23 viðskiptadögum í mánuðinum hafi einungis verið fjórir þar sem engin viðskipti áttu sér stað.

Í mánuðinum keypti Seðlabanki Íslands alls 9 milljónir evra í þremur inngripum.