Krónan styrktist hratt í kjölfar frétta um lækkun á útlánavöxtum Seðlabanka Bandaríkjanna á föstudag en sú styrking gekk að hluta til baka innan dags, að sögn greiningardeildar Glitnis. ?Þrátt fyrir það hækkaði gengi krónu um ríflega prósentustig yfir daginn eftir mikla lækkun dagana á undan,? segir greiningardeildin.

Fréttir og andrúmsloft á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum hefur mikil áhrif á íslensku krónuna líkt og aðrar hávaxtamyntir þessa dagana.

Það sem af er degi hefur krónan styrkst um 0,89% þegar þetta er ritað, og stendur gengisvísitalan nú í 124 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

?Svipaða hreyfingu má sjá í öðrum hávaxtamyntum en þó gætir enn talsverðrar varkárni á alþjóðamörkuðum og eins hefur aðgengi að lánsfé til vaxtamunarviðskipta versnað, sem hvort tveggja dregur úr líkum á hraðri styrkingu hávaxtamynta. Gengi krónu er nú ríflega 2% lægra en það var í upphafi síðustu viku og um það bil 10% lægra en þegar krónan stóð hvað sterkust í seinni hluta júlímánaðar,? segir greiningardeildin.

Hún segir að framhaldið næstu daga muni að líkum ráðast af alþjóðlegum mörkuðum að verulegu leyti. ?Komi ekki frekari fréttir af vandræðum vegna áhættusamra húsnæðislána er líklegt að krónan haldi áfram að styrkjast eftir því sem markaðir róast,? segir greiningardeildin.