Á árinu 2015 styrktist gengi krónunnar um 7,9%. Velta á gjaldeyrismarkaði jókst um 85% og var hlutur Seðlabankans í veltunni 55%. Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 123 ma.kr. og var í árslok 653 ma.kr. Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabankans .

Gjaldeyrisforðinn jókst mest vegna hreinna gjaldeyriskaupa Seðlabankans um sem nemur 272 ma.kr. á árinu en á móti lækkaði forðinn m.a. vegna uppkaupa ríkissjóðs á eigin bréfum í erlendum gjaldmiðli að andvirði 42 ma.kr.

Alls námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði 272,4 ma.kr. á árinu 2015, sem nema um 12,5% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins og var aukningin um 140% á milli ára.

Til samanburðar námu gjaldeyriskaup á árinu 2014 um 5,6% af landsframleiðslu þess árs. Heildarvelta á gjaldeyrismarkaðnum jókst um 85% á milli ára og nam 492,7 ma.kr. árið 2015. Hlutur Seðlabankans í heildarveltu nam um 55% árið 2015 en um 43% árið 2014.