Gengi krónu hefur ekki verið hærra frá því að hún var að veikjast í mars í fyrra og hefur styrkst um 9% frá áramótum, að sögn greiningardeildar Landsbankans. Lokagildi krónu var 117,4, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. "Meðal þess sem hefur haft áhrif til styrkingar er mikil jöklabréfaútgáfa á fyrstu mánuðum ársins. Í dag voru til að mynda gefin út jöklabréf fyrir fjóra milljarða króna en sama fjárhæð var á gjalddaga í dag," segir greiningardeildin.

Greiningardeild Kaupþings telur að hár vaxtamunur við útlönd, ásamt loforði Seðlabankans um að hækka vexti ef krónan gefur eftir, muni viðhalda sterkri krónu á næstu mánuðum. "Hinsvegar gerum við ráð fyrir að krónan lækki nokkuð á næsta ári samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans og að gengisvísitalan verði kringum 130 stig að meðaltali árið 2008," segir hún.

Þá vekur hún athygli á að gengi krónunnar styrktist á mánudaginn síðastliðinn þrátt fyrir að aðrar hávaxtamyntir hafi margar hverjar lækkað í kjölfar umróts í stjórnmálum og á mörkuðum í Tyrklandi. "Áhyggjur fjárfesta af framgangi mála í Tyrklandi hafa hinsvegar farið dvínandi og hafa hávaxtagjaldmiðlar nú náð sér á strik á ný," segir greiningardeild Kaupþings.