Gengisvísitalan var við lok markaða 207,3 stig samkvæmt Markaðsvaktinni og styrktist krónan því um 2,3% frá opnun markaða í morgun.

Krónan hefur engu að síður veikst um 7,8% frá mánaðarmótum og um 3,5% á einni viku.

Samkvæmt Markaðsvaktinni stendur Evran nú í 158,7 krónum, Bandaríkjadalur í 120 krónum og Sterlingspundið í 173,1 krónu.

Þá stendur svissneskur franki í 104,7 krónum og japanskt jen í 1,2 krónum.

Opinber vísitalan Seðlabankans var í morgun 208,7 stig og hefur krónan því styrkst um 0,7% samkvæmt henni frá því í gær.

Viðmælandi Viðskiptablaðsins af gjaldeyrismarkaði segir að rekja megi styrkingu krónunnar til lagabreytinganna sem voru samþykktar á Alþingi í gær og gera megi ráð fyrir að krónan haldi áfram að styrkjast fram að helgi.

Eftir helgina muni hins vegar fara að reyna á hvort gjaldeyrishöftin hafi þau áhrif sem þeim er ætlað að hafa.

„Þá kemur í ljós hvort og hvernig þetta virkar,“ segir starfsmaður af gjaldeyrismarkaði í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir mestu veltuna í dag hafa verið í bönkunum sjálfum og þar hafi helst verið um að ræða fyrirtæki, og í einhverjum tilvikum einstaklinga, sem hafa setið á gjaldeyri og beðið eftir því að skipta honum.