Í fréttabréfi Júpiters segir að ekki sé ljóst hvort inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkað í vikunni hafi beinlínis verið til þess gerð til að styrkja krónuna og færa megi sterk rök fyrir því að krónan þurfi einfaldlega að veikjast meira en orðið er; innflutningur vöru og þjónustu hafi aukist verulega á fjórða ársfjórðungi og afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum á síðasta fjórðungi hafi ekki verið nema 10 milljarðar sem sé helmingslækkun frá fyrra ári. Eigi þjóðarbúið að hafa getu til að greiða niður erlendar skuldir á næstu árum sé hreinlega nauðsynlegt að meira af gjaldeyristekjum þess verði eftir í landinu.