Líklegt er að óróleiki vegna símafundar Fitch Ratings sem haldinn var klukkutíma fyrir lokun gjaldeyrismarkaðarins hafi átt einhvern þátt í veikingu krónu, að mati greinignardeildar Landsbankans en gengi krónu veitkist um 1,9% og var 121,8 stig við lok markaðar.

?Reyndar eru fjórir dagar síðan Fitch birti niðurstöðu sína um óbreytt lánshæfismat en reynslan frá því í febrúar þegar Fitch breytti lánshæfishorfum úr stöðugum í neikvæðar kann að koma hér við sögu,? segir greiningardeildin.

Styrktist aftur eftir símafund Fitch

?Eftir að fundurinn var hafinn styrktist krónan aftur þar sem ekkert nýtt kom í ljós á símafundinum. Undir lokin hækkaði svo vísitalan aftur. Almennt séð virðist viðhorf greinenda Fitch til íslenskra efnahagsmála vera fremur neikvætt þó svo að þeir hafi ekki séð ástæðu til að lækka lánshæfismat ríkissins að þessu sinni.

Þetta kemur nokkuð á óvart þar sem margir af þeim þáttum sem Fitch telur neikvæða hafa breyst til hins betra. Þetta á sérstaklega við stöðu bankanna. Mikill og vaxandi viðskiptahalli er greinendum Fitch mikill þyrnir í augum og útiloka þeir ekki að hann muni leiða til skjótrar aðlögunar í hagkerfinu, svo kallaðrar harðrar lendingar, sem að Fitch skilgreinir sem samdrátt í landsframleiðslu af svipaðri stærðargráðu og árið 2002,? segir greiningardeildin.