Samtals munu jöklabréf að nafnvirði 86,5 milljarðar króna falla á gjalddaga það sem eftir lifi r árs og þar af eru um 45 milljarðar á gjalddaga í október.

Björn Rúnar Guðmundsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Landsbankans, segir erfitt að spá nákvæmlega um hver áhrifin verða en segir ólíklegt að gjalddagarnir muni valda kollsteypu á gengi krónunnar.

„Aðstæður á gjaldeyrisskiptamarkaði hafa lagast nokkuð á síðustu vikum og ef sú þróun heldur áfram gæti gjalddögunum verið mætt með nýrri útgáfu,“ segir Björn.

Það sem af er ári hafa um 150 milljarðar verið á gjalddaga en um 100 milljörðum hefur verið mætt með endurútgáfu.

Enginn vaxtamunur

Jón Bjarki Bentsson hjá Greiningu Glitnis á ekki von á því að gjalddagarnir muni valda miklum sviptingum.

„Reynslan sýnir að krónan hreyfist ekki mikið á sjálfum gjalddögunum, sem bendir til þess að menn séu búnir að ganga frá viðskiptunum með nokkrum fyrirvara. Þetta hefur t.d. verið tilfellið í þessum mánuði,“ segir Jón Bjarki.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir ekki horfa byrlega með endurútgáfu bréfanna.

„Þótt vaxtamunur á gjaldeyrismarkaði hafi lagast geta fjárfestar ekki enn tryggt sér vaxta mun til lengri tíma sem er forsenda fyrir endurútgáfu,“ segir Ásgeir, sem reiknar því með að gjalddagarnir muni valda þrýstingi á krónuna næstu mánuði.