Krónan hefur nú veikst átta daga í röð um samtals 6%. Gengisvísitala krónunnar stóð í 123,75 stigum á föstudag, sem er hæsta gildi hennar frá 20. ágúst sl., en þrátt fyrir mikla veikingu að undanförnu er krónan enn um 3% sterkari en hún var um áramótin. Samhliða þessari lækkun hefur verið mikil velta á markaðnum. Meðalvelta á dag í vikunni var 41 milljaður króna, sem er tvöföld meðalvelta ársins.

Veikist meira en flestar aðrar hávaxtamyntir

Veiking krónunnar stafar aðallega af aukinni áhættufælni á alþjóðlegum fjármálamarkaði, sem leitt hefur til minni vaxtamunarviðskipta (e. carry trade), að því er segir í The Week in Review frá Landsbankanum. Þar kemur fram að krónan hafi veikst meira en flestar aðrar hávaxtamyntir. Tvennt er sagt geta skýrt meiri veikingu krónunnar. Annars vegar hafi Standard & Poor‘s tilkynnt þann 20. nóvember um verri horfur um lánshæfismat íslenskra ríkisins og síðan þá hafi krónan lækkað um 3%. Hins vegar finni Ísland meira fyrir erfiðleikum á lánsfjármörkuðum vegna þess hve fjármálamarkaðurinn hefur mikið vægi hér á landi.

Stór jöklabréfagjalddagi í janúar

Við þetta bætist, segir í The Week in Review, að jöklabréf að fjárhæð um 75 milljarðar króna að meðtöldum vöxtum eru á gjalddaga í janúar. Fram kemur að gefin hafi verið út 4 milljarða króna jöklabréf í vikunni, sem bendi til áframhaldandi áhuga, en áhrifin af stóra gjalddaganum í janúar séu að stærstum hluta háð þróun áhættufælni á alþjóðlegum mörkuðum.

Í ritinu er því spáð að krónan muni flökta áfram um hríð, en að áframhaldandi háir stýrivextir ættu að styðja við hana. Veruleg veiking krónunnar auki hættu á verðbólgu til skamms tíma, sem auki líkurnar á að Seðlabankinn hækki vexti sína, en þeir eru nú 13,75%.