Gengi krónu hefur veikst um 1,99% og er 159,8 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

„Ýmsir samverkandi þættir eru hér trúlega að verki," segir greiningardeild Glitnis. „Svo virðist sem ýmsir á markaði hafi átt von á aðgerðum til styrktar gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans samhliða útgáfu úttektar bankans á fjármálastöðugleika hérlendis. Ekkert slíkt var þó tilkynnt og raunar var tal Seðlabankamanna heldur til þess að slá á væntingar um að von sé á slíkum aðgerðum í bráð. Auk þess hafa alþjóðlegir markaðir í dag einkennst af áhættufælni, hlutabréfaverð hefur lækkað, skuldaálag hækkað og hávaxtamyntir gefið verulega eftir gagnvart helstu gjaldmiðlum," segir hún.