Krónan veiktist í dag um ríflega 1% samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Landsbankans. Þannig virðast lagabreytingarnar fyrr í vikunni ekki hafa ýkja mikil áhrif enn sem komið er og lítið náð að bæta andrúmsloft á markaðinum að því er sérfræðingar segja.

Menn benda þó á að hafa verði í huga að það getur tekið einhverja daga eða vikur þangað til breytingarnar hafa veruleg áhrif á greiðsluflæði frá útflytjendum. Velta hefur verið lítil í dag og hugsanlegt að ýmsir á markaði bíði átekta fram að vaxtaákvörðun Seðlabanka í næstu viku. "Krónan gæti þó tekið eitthvað við sér á næstu vikum í ljósi þess að fremur litlar vaxtagreiðslur til handa útlendingum eru fram undan fyrr en í júní og gjaldeyrisinnflæði frá útflytjendum ætti að aukast með reglunum nýju," sagði einn sérfræðingur við Viðskiptablaðið.