Íslenska krónan lækkaði um 1,44% í viðskiptum dagsins en gengisvísitalan endaði í 126,3 stigum við lokun markaða, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Þannig virðist sú veikingarleitni sem hófst í síðustu viku halda áfram en frá opnun gjaldeyrismarkaðarins mánudaginn 13. nóvember hefur krónan samtals veikst um 5,7%. Í sjálfu sér er erfitt að tína til sérstakar ástæður fyrir þessari veikingu.

Nokkrir hlutir leggjast þó gegn krónunni. Styrking hennar á haustmánuðum var að miklu leyti rekin áfram af krónubréfaútgáfu en sá stuðningur virðist hafa þorrið í bili, en síðasta útgáfa átti sér stað 18. október síðastliðinn.

Þá er vert að hafa í huga að horfur eru á því að viðskiptahallinn verði á bilinu 19-20% á þessu ári og svo mikill halli hlýtur ávallt að skapa töluvert útflæði gjaldeyris. Það sem skiptir þó mestu máli er að fjármagnsstraumar virðast einfaldlega hafa snúist, a.m.k. tímabundið, krónunni í óhag sem títt gerist með hávaxtamyntir,? segir greiningardeildin.

Krónan í flokki hávaxtamynta

Hún segir að í kjölfar mikilla vaxtahækkana hérlendis á síðustu tveimur árum hefur krónan komist í flokk hávaxtamynta þar sem töluvert erlent áhættufjármagn hefur leitað inn á gjaldeyrismarkaðinn í leit að háum vöxtum.

?Lækkun dagsins í dag sýnir vel þessa stöðu krónunnar. Meðan hávaxtamyntir sýna hækkunarleitni sækja fjárfestar inn til þess að fénýta vaxtamuninn en ef lækkunarhrina hefst af einhverjum orsökum eru þeir aftur á móti fljótir að forða sér. Af þeim sökum sýna hávaxtamyntir gjarnan þá hegðun að styrkjast nær samfellt í einhvern tíma en falla síðan snöggt í verði um skamman tíma þar til næsti hækkunarfasi hefst,? segir greiningardeildin.

?Hvað framhaldið varðar útilokar Greiningardeild ekki frekari lækkun, enda er krónan orðin þekkt fyrir töluverðar sveiflur, en miðað við núverandi vaxtamun er erfitt að sjá annað en fjármagnsstreymið muni leggjast með henni aftur um leið og um hægist,? segir hún.