Gengi krónunnar hefur lækkað um 6,7% frá því í nóvember í fyrra þegar yfirstandandi veikingarhrina hennar hófst. Hún hefur veikst hastarlega síðustu daga, þar af um 1% á föstudag í síðustu viku en annað eins hefur ekki sést á einum degi síðan í júlí árið 2009. Gengisvísitalan stendur nú í 226,3 stigum.

Greining Íslandsbanka segir frá því í Morgunkorni sínu í dag að veikingu krónunnar megi að stórum hluta rekja til endurgreiðslu fyrirtækja og að einhverju leyti sveitarfélaga á erlendum lánum. Þá sé árstíðarsveiflu vegna ferðamannagjaldeyris eflaust að valda þessu að hluta að viðbættum lakari viðskiptakjörum.

Greiningardeildin bendir á að gengi krónunnar er nú mun lægra en Seðlabankinn reiknaði með í verðbólguspá sinni og muni það auka líkurnar á að Peningastefnunefnd bankans ákveði að hækka stýrivexti í næsta mánuði.

Ítarlega er fjallað um veikt gengi krónunnar og skuldsett sveitarfélög í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.