Krónan veiktist um 0,82% í viðskiptum á millibankamarkaði í dag og var gengisvísitalan 112,51 við lokun markaða. Krónan hefur því veikst um 5,7% frá því hún náði hámarki þann 21. mars síðastliðinn þegar gengisvísitalan náði 106,4 stigum. "Svo virðist sem straumar séu heldur farnir að snúast á gjaldeyrismarkaði og njóti ekki lengur þess mikla innflæði á gjaldeyri sem studdi við krónuna á fyrsta fjórðungi ársins," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þar er einnig bent á að á sama tíma er gífurlegt útflæði vegna erlendra verðbréfakaupa og mikils viðskiptahalla, og við slíkar aðstæður er þörf á töluverðum erlendum lántökum innlendra aðila til þess að halda við núverandi gengi, sem verður að teljast fremur hátt.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.