Íslenska krónan veiktist um 14,1% gagnvart gengisvísitölu krónunnar á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Hún hefur hins vegar styrkts um 3,2% gagnvart vísitölunni á undanförnum þremur mánuðum, að því er segir í Hagsjá Landsbankans.

Krónan veiktist mest gagnvart sænsku krónunni á fyrstu ellefu mánuðum ársins eða um fimmtung. Veiktist hún um 17,1% gagnvart evrunni og um 9,6% gagnvart Bandaríkjadollara. Á undanförnum þremur mánuðum hefur krónan svo styrkst um 3,2% gagnvart evrunni og um 3,6% gagnvart dollaranum.

Styrking krónunnar hefur haldið áfram í desember. Í lok nóvember stóð evran í 159 krónum en stendur nú í tæplega 153 krónum. Dollarinn stóð í 132,7 krónum en stendur nú í tæplega 126 krónum.

Heildarvelta á gjaldeyrismarkaði í nóvember nam 32,5 milljörðum króna þar sem hlutdeild Seðlabanka Íslands var 43%. Í nóvember seldi Seðlabankinn evrur fyrir ríflega tíu milljarða króna í reglulegri sölu og fyrir 3,9 milljarða utan við reglulega sölu.

Í desember áformar Seðlabankinn að kaupa krónur fyrir 63 milljónir evra, andvirði 9.600 milljóna króna miðað við núverandi gengi, eða þrjár milljónir evra hvern viðskiptadag.