Gengi krónunnar styrktist um 7,7% á þessu ári mælt með gengisvísitölu krónunnar. Lokagengi krónunnar í fyrra var 129,2 stig en lokagengi þessa árs rétt tæp 120,0 stig, samkvæmt opinberri skráningu Seðlabankans. Í dag er síðasti viðskiptadagur með krónuna og gengisskráning Seðlabankans kl. 11 í dag er opinbert lokagildi ársins. Krónan veiktist um tæplega 0,1% í dag.

Vísitalan mælir verð erlendra mynta og lækkun vísitölunnar yfir árið þýðir þess vegna að krónan hefur styrkst. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd styrktist krónan fram undir lok júlí, en veiktist svo nokkuð snögglega. Mesta styrking krónunnar frá áramótum var 24. júlí þegar hún stóð í 110,4 stigum. Skömmu síðar, 16. ágúst, náði hún sínu veikasta gildi, 126,8 stigum, ef frá eru taldir fyrstu dagar ársins.

3,8% styrking gagnvart evru

Krónan styrktist um 3,7% gagnvart evrunni á árinu sem er að líða. Lokaverð evru í fyrra var 94,6 krónur, en lokaverð í ár voru 91,2 krónur. Nokkrar sveiflur voru samt innan ársins og evran fór hæst í 93,9 krónur en lægst í 81,7 krónur.

15,8% styrking gagnvart Bandaríkjadal

Gagnvart Bandaríkjadal styrktist krónan um 15,9% yfir árið. Hann stóð í 71,8 krónum í lok síðasta árs en 62,0 krónum í lok þessa árs, samkvæmt skráningu Seðlabankans. Dalurinn fór hæst í 72,4 krónur en lægst í 58,8 krónur.