*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 7. janúar 2020 15:51

Krónan veiktist í desember

Veiking krónunnar gagnvart evru í desember nam 1,6%, en veltan á gjaldeyrismarkaði jókst lítillega í mánuðinum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í lok desembermánaðar síðastliðins stóð evran í 135,7 krónum en hún hafði fengist á 133,6 krónur í lok nóvember svo veiking hennar þessa síðasta mánuð ársins nam tæplega 1,6%. Í desember jókst veltan á gjaldeyrismarkaði lítillega að því er Hagsjá Landsbankans bendir á, og nam hún alls 15,7 milljörðum króna, en í nóvember var veltan 13,5 milljarðar króna.

Seðlabankinn greip ekki inn á gjaldeyrismarkaðinn í desember. Seðlabankinn hefur haldið sig á hliðarlínunni síðan hann keypti 15 milljónir evra, fyrir um tvo milljarða króna um miðjan september.

Raungengi miðað við verðlag var 2,6% hærra í nóvember en í sama mánuði 2018. Það er nú 14,4% lægra en þegar það var hæst í júní 2017. Nafngengið í nóvember var 1,7% sterkara en á sama tíma 2018. Breytingin þarna á milli skýrist aðallega af nafngengisbreytingunni. Ef horft er milli ára var flökt íslensku krónunnar gagnvart evru nokkurn veginn óbreytt í desember.