Gengisvísitalan var 168 stig við lok markaða samkvæmt Markaðsvakt Mentis og veiktist krónan því um 0,8% frá opnun gjaldeyrismarkaða í morgun en styrktist aftur á móti um 0,7% frá opinberu gengi Seðlabankans frá því í gær.

Krónan hóf að veikjast strax í morgun og hafði um tíma veikst um 1,5% í dag.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun gengisvísitölunnar s.l. mánuð samkvæmt opinberu gengi Seðlabankans. Opinbert gengi var í morgun 167,7 stig en var í gær 169,2 stig sem er hæsta opinbera gengi sem sést hefur.

Áður hafði gengisvísitalan náð hámarki þann 24. júní s.l. þegar opinbert gengi Seðlabankans var 168,9 stig.

Krónan hefur nú veikst um 3,9% s.l. fimm daga sé miðað við markaðsgengi nú og lokagengi á mörkuðum s.l. fimmtudag.

Samkvæmt Markaðsvakt Mentis stendur Bandaríkjadalur nú í 91,2 krónum, Evran í 127 krónum og Sterlingspundið í 159,8 krónum .

Þá stendur svissneskur franki í 80 krónum, japanskt jen í 0,85 krónum og danska krónan í 17 krónum.