Krónan veiktist um 6,3% á fyrri helmingi þessa árs samkvæmt opinberu gengi Seðlabankans.

Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar hefur gengi krónunnar sveiflast nokkuð. Um miðjan janúar tók krónan að styrkjast nokkuð og hafði um miðjan mars styrkst um 17% frá áramótum.

Þá tók hún að veikjast á ný hefur leið hennar nánast legið samfellt niður á við síðan þá. Veikust var hún 10.  júní s.l.  mánaðar og hafði þá veikst um rúm 7% frá áramótum.

Ef horft er lengra aftur, til ársbyrjunar 2008, hefur krónan veikst um 47%, eða tæplega helming. Þetta felur í sér að í dag fást um það bil helmingi færri evrur eða dalir, svo dæmi séu tekin, fyrir krónurnar en fyrir hálfu öðru ári.

Samkvæmt vef Seðlabankans kostar Bandaríkjadalur nú 126,9 krónur, evran 178,5 krónur og Sterlingspundið 208,7 krónu.

Þá kostar svissneskur franki 117,1 krónu, japanskt jen 1,3 krónur og danska krónan 24 krónur.

Krónan enn veikari erlendis

Mikill munur er á gengi krónu innanlands og erlendis, en tölurnar hér að ofan miðast við gengi Seðlabankans, það sem kallað er þröng viðskiptavog. Gengi evru innanlands og utan hefur heldur nálgast allra síðustu daga, en sl. mánuð þar á undan hafði bilið á milli gengisins hér og erlendis farið minnkandi, að því er segir í Hagsjá hagdeildar Landsbankans á fimmtudag.

Þar segir að aflandsgengi evru hafi frá því í byrjun mars sveiflast frá 205 krónum í 300 krónur en standi nú í 220 krónum. Aflandsgengið sé því 42 krónum hærra en gengi Seðlabankans. Munurinn var enn meiri í mars, en fyrir hrun bankanna munaði mestu um 4 krónum á gengi evru utanlands og innan.