„Ég var ekkert terribly impressed ,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær. Á fundi samtakanna sem nú stendur yfir undir yfirskriftinni Raddir atvinnulífsins fagnaði hann því að stjórnvöld hafi lært af samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og séð nauðsyn þess að vinna eftir áætlun.

Vilhjálmur benti á að í efnahagsáætluninni sé talið líklegt að krónan sem sjálfstæður gjaldmiðill verði i viðjum hafta um ókomin ár.

Vilhjálmur hafði áður á fundinum sagt krónuna hafa nýst íslensku atvinnulífi í kreppunni.

Í riti Samtaka atvinnulífsins sem kom út í dag segir eftirfarandi um gjaldmiðilsmálum:

„Þrír kostir eru í gjaldmiðilsmálum Íslendinga, að halda krónunni sem gjaldmiðli, taka upp evru samhliða aðild að ESB og einhliða upptaka annars gjaldmiðils. Íslenska krónan verður ekki aflögð á næstu árum og góð hagstjórn treystir hana sem gjaldmiðil til skemmri sem lengri tíma.“